• Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Fréttir | 24. apr. 2024

Hvert stefnir Ísland?

Forseti flytur ávarp á árlegri ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Norræna hússins í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Ráðstefnan var í Norræna húsinu í Reykjavík og bar heitið Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?

Í máli sínu minnti forseti meðal annars á stöðu Íslands sem smáþjóðar á alþjóðavettvangi, möguleika til að hafa þar áhrif og mikilvægi þess að ýkja ekki þá kosti. Þá vék forseti að því hvernig skilgreiningar á sjálfstæði og þjóðerni breytast og mótast í tímans rás og dró mál sitt saman í þessum lokaorðum:

„Sú hugmynd er horfin að ein þjóð skuli vera eins þjóð. Sem betur fer hefur meirihluti Íslendinga ekkert á móti því (eða hvað?) að íbúar þessa lands séu ólíkir á hörund, tilheyri hinum og þessum trúfélögum, heiti alls kyns nöfnum, tali með hreim, fæddir í fjarlægum löndum. Þjóð með sjálfstraust leitar eftir fjölbreytni, fleiri siðum og ólíku fólki. Þjóðir geta vart búið sér verri örlög en þau að streitast á móti öllum breytingum. Við höfum breyst og hugmyndir okkar um sjálfstæði í hörðum heimi hafa breyst. Þannig hefur okkur tekist að viðhalda hér samfélagi sem er með þeim vænlegustu á jörðinni. Við höfum líka notið góðs af samvinnu við önnur ríki og frumkvæði þeirra á ýmsum sviðum. Loks höfum við Íslendingar eflst og dafnað vegna ættjarðarástar, þeirrar djúpstæðu tilfinningar sem er svo dýrmæt í réttum mæli. En ástin á landi og þjóð má ekki verða svo mikil að búin sé til fölsk mynd af afrekum og kostum að fornu og nýju. Aftur: Það væri háð en ekki lof.“

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar